Meginmarkmið
Meginmarkmið vátrygginga er að dreifa áhættu á ófyrirsjáanlegu fjárhagslegu tjóni vátryggingartaka vegna atvika sem sérstaklega eru tilgreind í vátryggingarsamningi. Einstaklingar og fyrirtæki leita til vátryggingafélags til að vátryggja hagmuni sína fyrir óvæntu tjóni sem gæti haft verulegar afleiðingar í för með sér og greiða sérstakt iðgjald fyrir. Vátryggingafélag reiknar út hættuna á því að tiltekið tjón verði út frá tölfræðilegum staðreyndum, t.d. slysatíðni og meðaltjóni og ákveður meðal annars iðgjöld vátrygginga með hliðsjón af niðurstöðum þessara útreikninga.
Endurtryggingar
Vátryggingafélag endurtryggir sig hjá öðrum og stærri vátryggingafélögum, s.k. endurtryggjendum, og þannig dreifist áhættan á fjárhagstjóni á marga aðila. Margir aðilar saman eru betur í stakk búnir að takast á við stærri tjón en einn aðili sem tekur á sig alla áhættuna.
Gagnsemi vátrygginga
Vátrygging kemur ekki í veg fyrir slys. Hún er þó hagstæð að því leyti að hún takmarkar fjárhagslegt tjón sem hefur orðið. Hún getur t.d. komið í veg fyrir að einstaklingur verði fyrir verulegu tekjutapi vegna slyss sem hann lendir í, að hann verði fyrir varanlegu eignatjóni vegna bruna eða þjófnaðar og að einstaklingur verði gjaldþrota vegna skaðabótaábyrgðar sem lendir á honum við tjón. Einnig getur vátrygging komið í veg fyrir að tjónþoli fái ekki bætur vegna þess að tjónvaldur er ekki greiðslufær. Vátrygging á að gera það að verkum, að ef maður lendir í slysi eða verður valdur að slysi sem hefur í för með sér skaðabótaábyrgð, þá verði viðkomandi ekki fyrir alvarlegri röskun á stöðu eða efnahag.