Ein tegund vátrygginga

Slysatryggingar eru ein tegund vátryggingar, sem hefur það að markmiði að skapa fjárhagslegt öryggi þegar vátryggður verður fyrir líkamstjóni. Slysatrygging er í eðli sínu einstaklingsvátrygging, sem gengur út á að greiða bætur til tjónþola eða aðstandenda vegna slyss sem leiðir til dauða, tímabundins atvinnutjóns, varanlegrar örorku eða að öðru leyti til líkamstjóns. Oftast er slysatrygging summutrygging en þær geta einnig verið skaðatryggingar[1]

Frjálsar eða skyldutryggingar

Í sumum tilfellum eru slysatryggingar skyldutryggingar en oftast er þó um að ræða vátryggingar sem frjálst er að kaupa hjá vátryggingafélagi. Sem dæmi um frjálsar slysatryggingar má nefna almenna slysatryggingu og frítímaslysatryggingu, sem er yfirleitt hluti af fjölskyldutryggingu.

Dæmi um slysatryggingar

Dæmi um slysatryggingu, sem skylda er að kaupa, er slysatrygging ökumanns, samkvæmt núverandi 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og slysatryggingar samkvæmt kjarasamningum, t.d. slysatryggingar launþega og sjómanna. Slysatryggingar eru margskonar en þjóna allar sama tilgangi, þ.e. að bæta tjónþola, að einhverju leyti, það fjárhagslega tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna slyss. Slysatrygging ökumanns er dæmi um lögboðna slysatryggingu sem að mestu leyti hefur einkenni skaðatrygginga.


[1] Þegar um summutryggingu er að ræða er vátryggingarfjárhæð fyrirfram ákveðin án tillits til raunverulegs fjárhagslegs tjóns. Skaðatryggingar hafa ekki fyrirfram ákveðna vátryggingarfjárhæð heldur bætir vátryggingin raunverulegt fjárhagslegt tjón tjónþola.