Fyrstu bílarnir

Fyrstu bílarnir komu til Íslands í upphafi síðustu aldar. Sumarið 1904 gerði Dethlev Thomsen, konsúll og kaupmaður, tilraun til að nota slíkt flutningatæki hér á landi en hann fékk styrk frá Alþingi til að flytja bifreið til Íslands. Þann 20. júní það ár flutti hann ,,Thomsenbílinn“ inn til Íslands. Hann reyndist vélarvana og bilanagjarn og var fluttur úr landi sumarið eftir. Sömu sögu má segja um tilraun til að reka bifreið sem gerð var á Norðurlandi árið 1907 en þá var ,,Grundarbíllinn“ fluttur inn. Árið 1913 voru fjórar bifreiðir fluttar til landsins og hefur umferð bifreiða frá þeim tíma aldrei lagst af á Íslandi.[1]

Stóraukin bifreiðaeign

Bifreiðaeign Íslendinga hefur frá byrjun síðustu aldar stóraukist. Á árunum 1916 – 1925 voru fluttar til landsins 466 bifreiðir og á árunum 1926 – 1930 voru fluttar til landsins 1383 bifreiðir.[2] Árið 1990 voru skrásettar bifreiðir hér á landi 134.181, en árið 2000 var þessi tala komin upp í 180.041.  Sjá svo neðangreinda töflu varðandi þróun frá árinu 2000 til 2018 en skráð ökutæki eru nú yfir 300.000 á Íslandi (upplýsingar frá Hagstofu Íslands).

Þessi mikla stækkun bifreiðaflotans hefur aukið umferð á vegum landsins til muna og þar með slysahættu af völdum þeirra.

Fjölgun umferðarslysa

Umferðarslysum hefur fjölgað jafnt og þétt í kjölfar stækkunar bifreiðaflotans á Íslandi. Með auknum hraða hefur alvarlegum slysum einnig fjölgað. Á síðustu 10 árum hefur banaslysum almennt fækkað, sjá neðangreinda töflu (upplýsingar frá Hagstofu Íslands).

En það verður ekki sagt um fjölda slasaðra síðustu 30-40 árin. Þó fjöldi slasaðra á hverju ári er mismunandi er augljós aukning frá 1981 og 1990 (upplýsingar frá Hagstofu Íslands).

Þótt fórnarkostnaður sé mikill og afleiðingar víðtækar er bifreið eitt helsta samgöngutæki jarðar.

Miklar afleiðingar

Margar ástæður eru fyrir fjölgun umferðarslysa en afleiðingar þeirra eru mjög skýrar og margvíslegar. Fólk slasast og getur misst úr vinnu, tímabundið eða varanlega, og orðið fyrir tekjutapi. Bifreiðir skemmast með tilheyrandi kostnaði. Hvert umferðarslys getur haft mikinn kostnað í för með sér fyrir vátryggingafélög (sem greiða bæturnar) en aukning umferðarslysa getur leitt til iðgjaldahækkana. Þetta eru einungis fá dæmi um afleiðingar umferðarslysa. Ekki má heldur gleyma þeim andlegu þjáningum sem fólk þarf oft að líða í kjölfar slysa, bæði þeir slösuðu og aðstandendur þeirra.

Nauðsyn bifreiðatrygginga

Bifreiðatryggingar eru nauðsynlegar m.a. til að þjóðfélag njóti góðs af kostum bifreiðar. Helsta ástæða þess er sú að mikill kostnaður fylgir hverju umferðarslysi og ef bifreiðareigandi þyrfti að greiða skaðabætur beint úr eigin vasa væri ekki jafn mikil bifreiðaeign hér og raun ber vitni. Löggjafinn er greinilega á þessari skoðun enda er kveðið á um vátryggingaskyldu bifreiða í lögum, núna umferðarlögum en frá 1. janúar 2020 er skylduna að finna í lögum um ökutækjatryggingar nr. 30/2019. Þar er kveðið á um skyldu bifreiðaeiganda til að kaupa ábyrgðartryggingu auk slysatryggingu ökumanns og eiganda. Nánar verður fjallað um þessar skyldutryggingar, skaðabótaábyrgð og bótarétt í síðari pistlum.


Heimildir:

[1] Kristinn Snæland: Bílar á Íslandi í myndum og máli 1904 – 1922, bls. 11 – 30.

[2] Örnólfur Thorlacius: Upphaf bílaaldar á Íslandi. Í David Burgess Wise: Gamlir bílar, bls 156-158.